Þrettándi áfanginn - Hreyfigrafík 2
Fyrsti áfanginn á nýrri önn var annar áfangi af hreyfigrafík sem stóð í fjórar vikur.
Við fengum mjög frjálsar hendur í þessum áfanga. Hann var skemmtilega krefjandi og gott framhald af áfanganum á síðasta ári.
Við fengum það verkefni að búa til upphafsatriði/intro fyrir hvers konar kvikmynd eða sjónvarpsþátt sem við vildum.
Ég lagði kannski svolítið geyst af stað og langaði að búa til einskonar teiknimynd sem væri mjög einföld í sniðum og blandaði saman frásagnatækni teiknimynda og myndasagna (Innblásið af þáttum sem heita The Way of the House Husband).
Ég valdi að vinna með gömlu söguna um Gilitrutt sem segir frá því hvernig lata húsfreyjan semur næstum frá sér frelsi sitt til tröllskessu. Ég skrifaði niður handrit og teiknaði upp myndefni til að nota í verkefninu. Svo fékk ég karlinn minn til að hjálpa mér við talsetningu og tónlist.
En þetta var kannski of stór biti til að kyngja og eftir áfangann stóð ég eftir með intro, eina senu og kreditlistann. Senurnar áttu að vera átta talsins en það hafðist ekki að klára meira á þessum tíma sem við höfðum. Tónlistin var líka ekki tilbúin og þess vegna skilaði ég verkefninu með ókeypis tónlist af netinu, sem þó fangaði stemninguna nokkuð vel.
Ég tók út talið af þessarri útgáfu viljandi.
Það fer mikil vinna í svona verkefni, undirbúningur og skipulag. Það væri gaman að klára verkefnið einn daginn, en við sjáum til hvað verður.
Frábær áfangi, bætti mikið við þekkingu mína á After Effects forritinu sem við unnum á og hvernig ég get notað eiginleika annarra forrita samhliða því.
Comments